Mikill fjöldi gesta og áhugi á samstarfi á alþjóðavettvangi
Íslandsstofa stýrði þátttöku Horses of Iceland í Equitana sýningunni í Essen í Þýskalandi sem stóð yfir dagana 18.-26. mars. Um er að ræða stærstu hestasýningu í Evrópu og voru gestir um 30.000 á dag þegar mest var. Gestir fjölmenntu á básinn og beið fólk í röðum til að fá að horfa á íslenska hestinn í 360° myndbandi sem hægt var að skoða í sýndarveruleikagleraugum.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimsótti sýninguna og fundaði með þýsku samtökunum og ræddi m.a. um ávinning þess að allir sameinuðust í kynningarstarfi íslenska hestsins um heim allan. Ráðherrann opnaði formlega fyrir sölu á miðum á Landsmót 2018 sem haldið verður í Reykjavík í byrjun júlí.
Að sögn Jelenu Ohm, verkefnisstjóra Horses of Iceland verkefnisins, tókst vel til með kynningu á hestinum og markaðsverkefninu á sýningunni. Lögð var áhersla á alþjóðlegt sjónarhorn verkefnisins og að kynna ávinning þess að vera með, fyrir bæði samtök og fyrirtæki um heim allan.