IMG_5569.JPG

Hestadagar verða haldnir dagana 29. apríl – 1. maí næstkomandi með glæsilegri dagskrá um land allt:

Laugardaginn 29. apríl
1. Gæðingafimi, Sprettur:

Þriðja árs nemendur Hólaskóla bjóða upp á kennslusýningu í gæðingafimi, og keppni í gæðingafimi í framhaldinu. Mjög sterkir knapar hafa nú þegar boðað komu sína. Glæsileg verðlaun verða í boði fyrir þá sem lenda í efstu sætunum.

Dagskrá:
10:00-12:00 Kennslusýning reiðkennaraefni Hólaskóla.
13:00-17:00 Keppni í gæðingafimi.
Hlekkur á viðburðinn á Facebook: https://www.facebook.com/events/1845581609038106

2. Æskan og hesturinn í Víðidal

Hin árlega sýning Æskan og hesturinn verður haldin laugardaginn 29. apríl næstkomandi í TM-Reiðhöllinni í Víðidal. Þar koma fram efnilegustu hestamenn landsins og sýna afrakstur vetrarstarfsins. Það er óhætt að segja að sýningin sé hápunktur æfingatímabilsins hjá hinum ungu knöpum.
Hópar ungra hestamanna frá öllum hestamannafélögunum á höfuðborgarsvæðinu: Fáki, Herði, Spretti og Sörla sýna fjölbreytt atriði sem þeir hafa æft í hverju félagi fyrir sig. Sýningarnar verða tvær: kl. 13:00 og 16:00.
Súsanna Sand, formaður Félags tamningamanna, setur sýninguna og auk hinna fjölmörgu glæsilegu atriða sem börnin sýna munu Eurovisionstjörnurnar Hildur Kristín Stefánsdóttir og Aron Hannes Emilsson flytja nokkur lög. Að sýningu lokinni verður börnum boðið á hestbak í gerðinu hjá Reiðskóla Reykjavíkur.
Frítt er inn á sýninguna á meðan húsrúm leyfir.

3. Ræktun 2017 – Kvöldsýning í Fákaseli

Stórsýning Hrossaræktarsamtaka Suðurlands, RÆKTUN 2017, fer fram í Fákaseli að Ingólfshvoli laugardaginn 29. apríl n.k. kl. 20:00. Áherslan verður á sýningar ræktunarbúa, afkvæmasýningar hryssna og stóðhesta ásamt hópa einstaklingssýndra hryssna og stóðhesta.

Mörg spennandi ræktunarbú og afkvæmahópar hafa tilkynnt þátttöku sína. Ekki missa af rjóma Hrossaræktarsamtaka Suðurlands!

Sunnudaginn 30. apríl
4. Sauðárkróki:

ÆSKAN OG HESTURINN er samstarfssýning hestamannafélaganna á Norðurlandi þar sem unga fólkið í viðkomandi félögum er með sýningaratriði á hestum. Atriðin eru fjölbreytt og skemmtileg og gaman að sjá unga og upprennandi knapa.
Sýningin er haldin til skiptis í reiðhöllum á Norðurlandi og í ár verður hún í Svaðastaðahöllinni á Sauðárkróki, 30. apríl kl. 14:00.
Aðgangur ókeypis.
Allir velkomnir.
Veitingar seldar í anddyri reiðhallarinnar.

5. Skrúðreið í miðbæ Reykjavíkur

Skrúðreiðin hefst formlega við Hallgrímskirkju kl. 13:00. Riðið verður niður Skólavörðustíg og um Bankastræti, Austurstræti, Pósthússtræti, Vonarstræti og inn á Austurvöll. Þar gefst fólki tækifæri til að klappa hestunum og spjalla við knapana. Frábær fjölskylduskemmtun!

6. Mánudaginn 1. maí – Dagur íslenska hestsins um allan heim

Eigendur íslenska hestsins um heim allan eru hvattir til að gera sér glaðan dag með gestum og gangandi, bjóða í heimsókn í hesthús eða í útreiðartúr. Markmiðið er að kynna hestinn og hestamennsku, hafa gaman, njóta dagsins og slá á létta strengi!

Þátttakendur eru hvattir til að deila upplifun sinni með myllumerkinu #horsesoficeland á samfélagsmiðlunum með ljósmyndum og myndskeiðum. Sá sem sendir inn skemmtilegustu myndina getur unnið vikupassa á Landsmót hestamanna í Reykjavík, dagana 27. júní til 3. júlí. 2018!

IMG 5569

Deila færslu