470182188_1089653006283179_2848503194846869462_n

Uppskeruhátíð Skagfirðings fór fram í gær, sunnudag þar sem knapar ársins hjá félaginu voru verðlaunaðir. Hér fyrir neðan má lesa um útnefnda knapa í hverjum flokki ásamt hluta af þeirra árangri í sumar.

Árið 2024 var gott ár hjá Bjarna Jónassyni en hann var útnefndur KNAPI ÁRSINS hjá Hestamannafélaginu Skagfirðingi 2024. 

Hann átti góðu gengi að fagna á keppnisvellinum en hann var einnig útnefndur íþrótta -og gæðingaknapi ársins. Hann sigraði meðal annars fimmgang á WR Hólamóti og reið til úrslita í sömu grein á Landsmóti með Hörpu Sjöfn frá Hvolsvelli (7.43 í einkunn). Hann sigraði tölt á WR Hólamóti og Stórmóti Hrings með Dís frá Ytra-Vallholti en þau hlutu í sumar 8.06 í tölti T1 og riðu til B-úrslita í B-flokki á Landsmóti í sumar þar sem þau hlutu 8.82 í einkunn. Einnig átti Bjarni gott ár í gæðingaskeiði með Eðalstein frá Litlu-Brekku og Rúrik frá Sauðárkróki, Eind frá Grafarkoti í A-flokki og Leik frá Sauðárkróki í slaktaumatölti (8.17). 

Knapi ársins í Skagafirði 2024 – Bjarni Jónasson

Skeiðknapi ársins er Daníel Gunnarsson en hann hefur eins og oft áður, átt gott ár í skeiðgreinum.  Hann vann til bronsverðlauna á Íslands -og Landsmóti í 150m skeiði á Skálmöld frá Torfunesi á tímanum 14.08 sekúndum, var í fyrsta og öðru sæti í 250m skeiði á WR Hólamóti ásamt því að sigra 250m skeið á Stórmóti Hrings. Daniel hefur einnig náð góðum árangri með fjölmörg hross í 250 m. skeiði og 100 m. skeiði, meðal annars með fjögur hross undir 8 sekúndum í 100m. 

Keppnishross hans í sumar voru: Strákur frá Miðsitju, Kló frá Einhamri 2, Smári frá Sauðanesi, Stapi frá Oddhóli, Skálmöld frá Torfunesi, Kári frá Korpu og Sigur frá Sámsstöðum. Aðrir tilnefndir voru Sigurður Heiðar Birgisson og Bjarni Jónasson. 

Skeiðknapi ársins 2024 – Daniel Gunnarsson

Bjarni Jónasson var útnefndur bæði íþróttaknapi og gæðingaknapi Skagfirðings en Bjarni náði góðum árangri á árinu með fjölmörg hross. 

Meðal annars sigraði hann fimmgang á WR Hólamóti og reið til úrslita í sömu grein á Landsmóti með Hörpu Sjöfn frá Hvolsvelli (7.43 í einkunn). Hann sigraði tölt á WR Hólamóti og Stórmóti Hrings með Dís frá Ytra-Vallholti en þau hlutu í sumar 8.06 í tölti T1 og riðu til B-úrslita í B-flokki á Landsmóti þar sem þau hlutu 8.82 í einkunn. Einnig átti Bjarni gott ár í gæðingaskeiði með Eðalstein frá Litlu-Brekku og Rúrik frá Sauðárkróki, slaktaumatölti á Leik frá Sauðárkróki og A-flokki á Eind frá Grafarkoti og Spennanda frá Fitjum.  Aðrir tilnefndir til íþróttaknapa ársins voru Daniel Gunnarsson og Mette Mannseth en til gæðingaknapa ársins Finnbogi Bjarnason, Mette Mannseth og Skapti Steinbjörnsson.

Íþrótta -og gæðingaknapi ársins 2024 – Bjarni Jónasson

Knapi ársins í áhugamannaflokki er Þóranna Másdóttir en hún sigraði B-flokk og tölt  áhugamanna í Skagfirsku mótaröðinni ásamt því að  sigra tölt og fjórgang á WR Hólamóti með Dalmar frá Dalbæ. Tilnefndur var Pétur Ingi Grétarsson. 

Knapi ársins í áhugamannaflokki – Þóranna Másdóttir

Knapi ársins í ungmennaflokki er Þórgunnur Þórarainsdóttir en hún varð Íslandsmeistari í samanlögðum fimmgangsgreinum, var í í öðru sæti í fimmgangi og fjórða sæti í gæðingaskeiði á Íslandsmóti með Djarf frá Flatatungu ásamt því að vera í sjöunda sæti í fjórgangi með Hnjúk frá Saurbæ. Hún sigraði tölt og fjórgang á WR Hólamóti og reið til B-úrslita á Landsmóti í sumar með Jaka frá Skipanesi. Aðrar tilnefndar voru Björg Ingólfsdóttir og Ólöf Bára Birgisdóttir. 

Knapi ársins í ungmennaflokki – Þórgunnur Þórarinsdóttir

Reiðkennari ársins á Íslandi er Skagfirðingurinn Finnbogi Bjarnason og verður var á Finnboga sent til Feif sem reiðkennari ársins fyrir Íslands hönd (e.Feif trainer of the year) og verður kosning á vefsíðu FEIF þar sem kosið verður um einn reiðkennara frá hverju landi.

Reiðkennari ársins á Íslandi 2024 – Finnbogi Bjarnason

Skagfirðingur hefur í nokkur ár verðlaunað félagsmann ársins, en það er sá félagsmaður sem hefur að óeigingirni og dugnaði verið boðinn og búinn til að sinna hinum ýmsu störfum og tekið þátt í félagsstarfinu að mikilli jákvæðni svo eftir er tekið. JÁ manneskja okkar í ár er Sigurlína Erla Magnúsdóttir en hún var einnig kosin LH félagi ársins. 

Félagsmaður Skagfirðings og LH félagi ársins – Sigurlína Erla Magnúsdóttir

Stjórn Skagfirðings óskar öllum verðlaunahöfum innilega til hamingju með árangurinn og langar að þakka Alendis fyrir öll myndböndin af tilnefndum knöpum.

Deila færslu