183071998_105400431720867_113511129205157483_n

Sýningar ræktunarbúa skipa ávallt heiðurssess á Fjórðungsmótum, og á Fjórðungsmóti 2021 í Borgarnesi verður engin breyting þar á. Stefnt er á að tilhögun sýninga verði með svipuðu sniði og verið hefur á undanförnum mótum, þ.e. að þátttaka verði bundin við 10 ræktunarbú. Sýning ræktunarbúa eru áætluð á dagskrá mótsins föstudagskvöldið 9. júlí eftir kl. 19:00 og mun áhorfendum verða boðið að taka þátt við að velja besta ræktunarbúið með kosningu.

Það ræktunarbú sem flest atkvæði hlýtur ávinnur sér þann heiður að koma fram á laugardagskvöldinu í skemmtidagskrá kvöldvöku. Sýningartími á hvert bú er miðað við 5 mínútur. Útfærsla sýningar er alfarið á ábyrgð forráðamanna. Fótaskoðun verður viðhöfð og gilda reglur gæðingakeppni þar um, auk þeirra viðmiðana um heilbrigði sem mótstjórn FM setur. Miðað er við að 4 – 8 hross séu í hópnum, og þurfa þau að vera frá sama lögbýli, eða fædd meðlimum sömu fjölskyldu.

Þátttakendur velja tónlist sjálfir og skila inn skriflega texta fyrir þul hvernig búið skuli kynnt. Hálf síða í mótaskrá fylgir til kynningar á búinu og þeim hestum sem koma fram í sýningunni en forsvarsmenn búanna verða að skila inn upplýsingum fyrir 20. Júní.

Ræktunarbú og Keppnishestabú ársins 2020 eru boðin til mótsins og munu þau koma fram ásamt verðlaunabúinu á kvöldvöku laugardagskvöldsins 10. júlí.

Þeir hrossaræktendur sem hafa áhuga á að koma fram með sinn hóp á Fjórðungsmóti 2021 eru beðnir að senda inn umsókn um slíkt og athugið að gefa upp upplýsingar um hvaða hross er stefnt með á sýninguna. Dregin verða svo 10 bú til þátttöku úr innsendum umsóknum. 

Þáttökugjaldið er kr.60.000.
Umsóknarfrestur er til 20. júní og verður tilkynnt þann 25. júní hvaða ræktunarbú munu taka þátt.Umsóknir skulu sendar á netfangið fjordungsmot2021@gmail.com

Deila færslu