Æskulýðsdeild hestamannafélagsins Skagfirðings hefur gengið frá ráðningu yfirreiðkennara félagsins. Unnur Rún Sigurpálsdóttir hefur verið ráðin í starfið en hún er uppalin í Skagafirði og er menntaður reiðkennari & þjálfari frá Háskólanum á Hólum auk diplómunáms í viðburðastjórnun.
Hlutverk yfirreiðkennara Skagfirðings er að vera með faglega umsjón með skipulagningu og mótun á afreksstarfi félagsins, hafa yfirumsjón með þjálfun og kennslu yngri flokka, móta framtíðarstefnu félagsins í kennslu og námskeiðahaldi, stuðningur við æskulýðsdeild tengt viðburðum og hittingum og umsjón barna og unglinga fyrir mót félagsins, Íslandsmót, Landsmót og eftirfylgni á stærri mótum.
Markmið starfsins er að auka þátttöku og þekkingu félagsmanna á hestamennsku, að starfa að metnaði ásamt því að auka þátttöku og samkeppnishæfni á stærri mótum. Við bjóðum Unni velkomna í starf yfirþjálfara og hvetjum alla til að skoða vel framboð vetrarins hvað varðar kennslu og fræðslu sem kynnt verður á næstu dögum – Framundan er skemmtilegt og fjölbreytt starf.