450247448_982006907047790_5853997776222293283_n

Helgin á Landsmóti!

Föstudagur

💥 Skeið fór fram seinnipart dags þar sem Skagfirðingur átti tvo fulltrúa. Daniel Gunnarsson og Skálmöld frá Torfunesi fóru á feikigóðum tíma 14.21 og þriðja sæti. Sigurður Heiðar og Hrina frá Hólum áttu flottan sprett og fóru á tímanum 14.55 og sjöunda sæti.

💥Um kvöldið fór fram sýning ræktunarbúa þar sem þrjú bú úr Skagafirði sýndu hross frá sinni ræktun. Það voru Íbishóll, Flugumýri og ræktunarbú ársins 2023 Þúfur. Öll áttu það sameiginlegt að sýna góð skagfirsk hross en sigurvegari ræktunarbúsýninga í þetta skiptið var Íbishóll!

Laugardagur

💥 Laugardagurinn byrjaði snemma á B-úrslitum í barnaflokki þar sem Skagfirðingur átti tvo flotta fulltrúa. Emma Rún með Tenór frá Litlu-Sandvík og Sigrún Sunna með Myllu frá Hólum en þær stóðu í tveimur efstu sætunum eftir fyrsta atriði, brokk og/eða tölt og sýndu góða reiðmennsku. Eftir stökkið fór það svo að Sigrún Sunna og Mylla frá Hólum hlutu tólfta sæti með einkunnina 8.49 og Emma Rún með Tenór frá Litlu- Sandvík í fimmtánda sæti. Ótrúlega magnaður árangur og óskum við ykkur öllum hjartanlega til hamingju, þið stóðuð ykkur alveg gríðarlega vel!

💥 B-úrslit í ungmennaflokk voru þar á eftir en þar átti Skagfirðingur einnig tvo flotta fulltrúa. Í tólfta sæti varð Þórgunnur Þórarinsdóttir með Jaka frá Skipanesi (8.58) og í fjórtánda sæti var Ólöf Bára Birgisdóttir með Jarl frá Hrafnagili (8.51). Frábærar sýningar hjá þessum stelpum!

💥 Við tóku gríðarsterk úrslit í A- og B-flokki þar sem Skagfirðingur átti sitthvorn fulltrúann. Þá feðga Bjarna Jónasson og Finnboga Bjarnason. Bjarni Jónasson og Dís frá Ytra-Vallholti urðu í tíunda sæti með 8.82 í einkunn og meðal annars 8.96 fyrir yfirferðartölt. Finnbogi Bjarnason og Einir frá Enni átti frábæra tölt og skeiðsýningu í A-flokki og uppskáru þrettánda sæti og einkunnina 8.69, þar á meðal einkunnina 9.0 út fyrir skeið.

💥 Flugskeið fór fram um kvöldið þar sem Mette Mannseth og Vívaldí frá Torfunesi fóru á 7.75 sekúndum (8.sæti), Daniel Gunnarsson og Smári frá Sauðanesi fóru á tímanum 7.79 (tíunda sæti) og Sigurður Heiðar Birgisson með Hrinu frá Hólum á tímanum 8.15.

Sunnudagur

💥Á sunnudegi stóð fulltrúi okkar Mette Mannseth með Klukku frá Þúfum sig frábærlega í A-úrslitum í mjög sterkum B-flokki og uppskáru þar 8.86 í einkunn og fimmta sæti en þær vinkonur voru virkilega flottar saman og má til gamans geta að þetta er einungis mót númer tvö hjá hryssunni (…aðeins fleiri hjá knapanum 😉 ).

💥 Í fimmgangs úrslitum var Bjarni Jónasson með Hörpu-Sjöfn frá Hvolsvelli þar sem Harpa-Sjöfn var í stuði og sýndi virkilega góða skeiðspretti (upp í 8.5 fyrir skeið) og er alltaf gaman að sjá þetta par saman í brautinni en eftir smá klikk á brokkinu var niðurstaðan sjötta sæti með flotta einkunn 7.26.

💥 Mette Mannseth og Hannibal frá Þúfum halda áfram að gera það gott og uppskáru þriðja sæti í fjórgangi með einkunnina 8.0 og fimmta sæti í tölti T1 með einkunnina 8.28!

Til hamingju Skagfirðingur með frábæran árangur á glæsilegu Landsmóti í Reykjavík 2024 og takk Fákur & Sprettur fyrir okkur.

🌟🌟🌟 Sjáumst á Hólum 2026🌟🌟🌟

Deila færslu