skagfirdingur_logo-1

Hestamannafélagið Skagfirðingur

Hestamannafélagið Skagfirðingur stóð fyrir öflugu og góðu félagsstarfi á árinu 2022. Stjórn hittist reglulega og byrjaði árið hjá stjórn á fundi á Blönduósi þar sem hestamannafélögin í kring hittu stjórnarmeðlimi Landssambands hestamanna. 

Veturinn fór vel af stað hvað varðar mótahald þar sem Skagfirska mótaröðin var vel sótt og góð þátttaka í öllum flokkum, það má því segja að liðakeppnin hafi tekist vel til. Kvennatölt Líflands var á sínum stað um páskana og margir félagsmenn kepptu í Meistaradeild KS. Reiðhallarsýningin “Tekið til kostanna” var haldin í Svaðastaðahöllinni samhliða skeiðmóti Meistaradeildar KS, átján konur æfðu stíft í töltgrúppunn yfir veturinn sem endaði á sýningaratriði á Tekið til kostanna. Tvöföld úrtaka Skagfirðings fyrir Landsmót var haldin í júní og átti félagið frábæra fulltrúa bæði á Landsmóti og Íslandsmóti á Hellu í júlí. Minni mót hér heima í héraði voru mörg á árinu og ber fyrst að nefna hið árlega UMSS mót sem var haldið í maí að Hólum í Hjaltadal, Félagsmót, firmakeppni sem og skeiðleikar og voru þau öll afar vel sótt af félagsmönnum. Reiðhallarsýning var haldin samhliða Laufskálarétt þar sem um 700 manns mættu og skemmtu sér vel.  

Fræðslunefnd Skagfirðings hefur verið virk og í vetur var haldið námskeið með Finnboga Bjarnasyni, skeiðnámskeið með Bjarna Jónassyni, Elvari Einarssyni og Danieli Gunnarssyni en þessi námskeið voru vel sótt og gaman að sjá hvað skeið áhugi félagsmanna er að aukast. Einnig voru fyrirlestrar á vegum fræðslunefndar í Tjarnarbæ með Víkingi Gunnarssyni og Guðrúnu Stefánsdóttir um áhrif þyngdar knapa á álag og hreyfingar hestsins, Merle Storm & Kristjáni Elvari. 

Æskulýðsdeild Skagfirðings er gríðarlega öflug og má þar þakka kröftugum félagsmönnum og nefndarfólki sem að því standa. Mörg námskeið eru í boði hjá félaginu en vikustarf er kennt tvisvar í viku fyrir krakka 10 ára og eldri, helgarstarf er kennt á laugardögum ætlað fyrir krakka yngri en 10 ára og keppnisþjálfun er einu sinni í viku sem skiptist í einkatíma og bóklega tíma. Ásetu- og jafnvægisnámskeið var í boði í haust en það er þriggja daga námskeið þar sem deildin sér um að útvega hesta og reiðtygi. Reiðnámskeið eru einnig í boði á Varmalæk þar sem Skagfirðingur er í samstarfi við Jóhönnu Heiðu reiðkennara á Varmalæk. Æskulýðsdagur Skagfirðings var haldinn 24.apríl þar sem krakkarnir sýndu m.a. hindrunarstökk og fimleika, riðu skrautreið með kennurunum sínum og svo var þrautabraut með valkvæðri tímatöku sem var mjög vinsæl. 

Nokkur uppbygging var á keppnissvæði félagsins á Sauðárkróki og var lagður ljósleiðari bæði inn í Tjarnarbæ sem og í Reiðhöllina Svaðastaði. Settar voru þökur á manirnar við völlinn, ný innkoma að skammhlið vallar og nú stendur til að koma rafmagni yfir völlinn svo hægt sé að hafa dómara með spjaldtölvur til móts við áhorfendur (sunnan við völlinn). FISK Seafood boðaði til Umhverfisdags í Skagafirði 7.maí og var ágæt mæting frá félagsmönnum Skagfirðings. Samkvæmt rekstrarreikningi námu rekstrartekjur félagsins á árinu 26.863 þús. kr. og var hagnaður af rekstrinum að fjárhæð 8.389 þús. kr. Samkvæmt efnahagsreikningi námu eignir félagsins 85.902 þús. kr. Eigið fé í árslok nam um 78.107 þús. kr.

Árshátíð Skagfirðings var haldin í október þar sem knapar ársins voru verðlaunaðir í hverjum flokki en í nokkur ár hefur félagið verðlaunað félagsmann ársins, en það er sá félagsmaður sem hefur að óeigingirni og dugnaði verið boðinn og búinn til að sinna hinum ýmsu störfum og tekið þátt í félagsstarfinu að mikilli jákvæðni svo eftir er tekið. Manneskjan okkar árið 2022 er Heiðrún Ósk Jakobínudóttir.

Hestamannafélagið Skagfirðingur er afar öflugt félag þar sem félagsmenn eru ósérhlífin við að leggja sitt af mörkum við uppbyggingu félagsins sem og hjálpa til við viðburði og viljum við hér með þakka þessu duglega fólki kærlega fyrir alla hjálpina á árinu sem og liðnum árum.

f.h stjórnar Hestamannafélagsins Skagfirðings, Elvar Einarsson, formaður

Deila færslu