464392332_1053986616516485_5904357363525165034_n

Landsþing LH fer nú fram í Borgarnesi þar sem veitt voru gullmerki LH. Tveir félagsmenn Skagfirðings voru meðal þeirra átta sem fengu merkið í ár en það voru þau Jónína Stefánsdóttir og Guðmundur Sveinsson. Stjórn Skagfirðings óskar þeim innilega til hamingju og þakkar þeim í leiðinni kærlega fyrir störf sín fyrir okkur hestamenn.

Jónína Stefánsdóttir

Jónína Stefánsdóttir hefur verið í hestmannafélaginu Stíganda í Skagafirði frá árinu 1972. Jónína hefur starfað mikið á stórmótum og verið óhrædd við að glaupa í hin ýmsu störf. Hvort heldur sem við afgreiðslu í sjoppunni á Vindheimamelum, passa stóðhestahús, kalla inná keppnisbrautina og/eða annað tilfallandi.

Jónína gekk í stjórn Stíganda árið 2004 og gegndi stöðu formanns frá 2008-2016. Jónína hafði þá einnig starfað í nefnd sem vann að sameiningu Skagfirsku félaganna; Léttféta, Stíganda og Svaða en ferlið tók tvö ár og varð að lokum hestamannafélagið Skagfirðingur. Jónína hefur verið formaður reiðveganefndar síðan 2008 og er enn. Loks var Jónína í Torfgarðsnefnd í áratug með vörslu á stóðhestum og gætti eigna þar. Jónína hlaut starfsmkeri UMFÍ árið 2012.

Guðmundur Sveinsson

Guðmundur fór fyrst í nefnd 15 ára gamall fyrir Hestamannafélagið Léttfeta, árið 1975. Hann hefur síðan þá starfað nánast óslitið síðan í stjórnum og nefndum fyrir hestamenn og er enn í nefnd fyrir sitt félag. Þetta spannar því nánast 50 ár í nefndarstörfum. Guðmundur sat í stjórn Hestaíþróttasambands Íslands þegar sambandið fær inngöngu í ÍSÍ. Guðmundur var formaður hestamannafélagsins Léttfeta um árabil. Hann sat í stjórn Vindheimamela til margra ára og var fulltrúi Léttfeta í sameininganefnd Skagfirsku Hestamannafélaganna. Hann fylgdi stofnun Hestamannafélagsins Skagfirðings úr hlaði sem fyrsti formaður félagsins og er einn af stofnendum KS deildarinnar og sat í stjórn hennar í áratug. Einnig sat hann í stjórn Flugu og Hrossaræktarsambands Skagafjarðar. Guðmundur hlaut starfsmerki UMFÍ árið 2006.

Einnig óskum við öllum nýjum gullmerkjahöfum LH til hamingju:

Halldór Sigurðsson

Gunnar Örn Guðmundsson

Sigríður Jóna Kristjánsdóttir

Helga Claessen

Pálmi Guðmundsson

Sigurður Ævarsson

Deila færslu