312713972_862626368444539_166376627706461215_n

Árshátíð Skagfirðings fór fram síðasta föstudag í Ljósheimum og eins og venja er voru knapar ársins hjá félaginu verðlaunaðir. Hér fyrir neðan má lesa um útnefnda knapa í hverjum flokki og þá sem tilnefndir voru ásamt hluta af þeirra árangri í sumar. 

Guðmar Freyr Magnússon var útnefndur knapi ársins hjá hestamannafélaginu en hann átti góðu gengi að fanga á keppnisvellinum á sínu fyrsta keppnisári í meistaraflokki meðal annars 2-3.sæti í gæðingaskeiði og B-úrslit í fimmgangi á Íslandsmóti og B-úrslit í A-flokki á Landsmóti Hestamanna. Einnig náði hann góðum árangri á WR Hólamóti UMSS og Skagfirðings en hans helstu keppnishross í ár voru Rosi frá Berglandi 1, Vinátta frá Árgerði og Brimar frá Varmadal.

Elvar Einarsson, formaður Skagfirðings og Guðmar Freyr Magnússon knapi ársins 2022.

Daniel Gunnarsson var útnefndur skeiðknapi ársins hjá félaginu en hann var í fjórða sæti í 250m skeiði á Landsmóti hestamanna, fimmta sæti í 100m og öðru sæti í 150m skeiði Meistaradeildar Líflands og 2.sæti í flugskeiði og 150m skeiði Meistaradeildar KS, annar í 250m skeiði á Reykjavíkumeistaramóti, 2.sæti í 250m skeiði á Gæðingamóti Fáks. Á WR Hólamóti UMSS og Skagfirðings var hann í öðru sæti í 100m skeiði þar sem hann fór á 7,50 sekúndum og sigraði 250m skeiðið. Hans helstu keppnishross voru Eining og Kló frá Einhamri 2, Strákur frá Miðsitju, Storð frá Torfunesi og Glæða frá Akureyri. Einnig voru tilnefnd Mette Mannseth en Mette keppti með Vívaldí frá Torfunesi í skeiðgreinum þar sem hún var önnur í flugskeiði Meistaradeildar Líflands, 3.sæti í flugskeiði og 5.sæti í 150m skeiði Meistaradeildar KS, 7.sæti í 100m skeiði á Landsmóti Hestamanna og 1.sæti í 250m skeiði á Skeiðleikum skagfirðings og Sigurður Heiðar Birgisson en Sigurður og Hrina frá Hólum áttu virkilega gott keppnisár á sínu fyrsta tímabili saman en þau enduðu í 2.sæti á Íslandsmóti í 150m skeiði, 2.sæti í 150m skeiði á WR Hólamótinu, 2.sæti á skeiðleikum Skagfirðings í 100m skeiði og 150m skeiði ásamt því að vera í efstu tíu á Íslandsmóti í 100m skeiði. 

Daniel Gunnarsson skeiðknapi ársins, Mette Mannseth og Sigurður Heiðar Birgisson.

Mette Mannseth var útnefnd íþróttaknapi Skagfirðings en Mette sigraði fimmgang, tölt, fjórgang og slaktaumatölt á WR Hólamótinu í vor, reið A-úrslit í slaktaumatölti á Landsmóti Hestamanna, var þriðja í einstaklingskeppni Meistaradeildar Líflands og sigraði fjórar greinar í Meistaradeild KS ásamt því að sigra einstaklingskeppnina. Hennar keppnishross í ár voru Skálmöld, Kalsi og Blundur frá Þúfum ásamt skeiðhestinum Vívaldí frá Torfunesi. Einnig voru tilnefndir Finnbogi Bjarnason en Finnbogi reið B-úrslit í tölti í Íslandsmóti á Hellu þar sem hann hlaut 7,70 í einkunn með Kötlu frá Ytra-Vallholti ásamt því að sigra tölt á Stórmóti Hrings. Einnig sigraði slaktaumatölt á sama móti með Leik frá Sauðárkróki og var þriðji á WR Hólamóti í slaktaumatölti og Guðmar Freyr Magnússon en Guðmar Freyr var í öðru sæti í fimmgangi og tölti á WR Hólamóti ásamt því að vera í 2.sæti í gæðingaskeiði á Íslandsmótinu á Hellu og B-úrslitum í fimmgangi. Hann var í 3.sæti í tölti Meistaradeildar KS ásamt því að vera fimmti í einstaklingskeppninni.

Mette Mannseth íþróttaknapi Skagfirðings og Guðmar Freyr Magnússon. Einnig var tilnefndur Finnbogi Bjarnason sem var staddur erlendis.

Skapti Steinbjörnsson var útnefndur gæðingaknapi Skagfirðings en Skapti sigraði bæði A-flokk og B-flokk á félagsmóti Skagfirðings ásamt því að sigraði A-flokk á Mývatn Open og Stórmóti Þjálfa. Hans helstu keppnishross í ár voru Lokbrá og Lukka frá Hafsteinsstöðum. Einnig voru tilefndir Bjarni Jónasson en Bjarni reið Korg frá Garði og Spennanda frá Fitjum í milliriðlum A-flokks á Landsmóti Hestamanna. Hann var í 2.sæti á Félagsmóti Skagfirðings með Tón frá Álftagerði og sigraði B-flokk á Stórmóti Þjálfa og Guðmar Freyr Magnússon en Guðmar reið B-úrslit í A-flokki á Landsmóti Hestamanna á Rosa frá Berglandi ásamt því að vera í 4.sæti í B-flokki á Félagsmóti Skagfirðings. 

Skapti Steinbjörnsson gæðingaknapi Skagfirðings og Guðmar Freyr Magnússon. Einnig var tilefnefndur Bjarni Jónasson sem staddur var erlendis.

Freydís Þóra Bergsdóttir var útnefnd knapi ársins í gríðarlega sterkum ungmennaflokki. Freydís sigraði B-úrslit í tölti ungmenna á Íslandsmótinu á Hellu og lenti í 7.sæti í A-úrslitum. Einnig reið hún A-úrslit á Landsmóti Hestamanna þar sem hún hlaut 8.sæti með Ösp frá Narfastöðum. Einnig keppti hún með Ösp og Burkna frá Narfastöðum í vetrarmótaröð Skagfirðings þar sem hún sigraði tölt og fjórgang og var önnur í fimmgangi. Tilnefndar voru einnig Björg Ingólfsdóttir og Stefanía Sigfúsdóttir en þær áttu frábært tímabil ár en Björg sigraði fimmgang og slaktaumatölt á WR Hólamótinu og keppti mikið á vetrarmótaröð Skagfirðings en meðal annars vann hún fimmgang, slaktaumatölt A-flokk ungmenna og gæðingatölt ásamt því að vera önnur í B-flokku ungmenna og fjórða í fjórgangi. Hennar helstu keppnishestar í ár voru Kjuði frá Dýrfinnustöðum og Straumur frá Eskifirði. Gaman er að segja frá því að Björg reið Kjuða til B-úrslita í A-flokki á Landsmóti Hestamanna þar sem þau hlutu Øder Cup bikarinn fyrir sína fallegu reiðmennsku og framkomu á því móti. Stefanía Sigfúsdóttir sigraði B-úrslit í fjórgangi ungmenna á Íslandsmótinu á Hellu og endaði í 5.sæti í A-úrslitum. Einnig reið hún A-úrslit í ungmennaflokki á Landsmóti Hestamanna þar sem hún endaði í 6.sæti. Einnig sigraði hún félagsmót Skagfirðings. Hennar keppnishestur í ár var Lottó frá Kvistum. Skagfirðingar geta því verið stoltir af okkar ungmennum sem stóðu sig virkilega vel á tímabilinu. 

Freydís Þóra Bergsdóttir knapi ársins í ungmennaflokki, Stefanía Sigfúsdóttir og Björg Ingólfsdóttir.

Stefán Öxndal Reynisson var útnefndur knapi ársins í áhugamannaflokki en hann sigraði bæði A-flokk og B-flokk áhugamanna á gæðingakvöldmóti Skagfirðings, var í 3.sæti í tölti og fimmgangi á WR Hólamótinu, vann A-flokk í Vetrarmótaröð Skagfirðings og fjórði í tölti. Einnig voru tilnefnd Guðrún Hanna Kristjánsdóttir en hún sigraði fjórgang á WR Hólamótinu og var önnur í tölti. Einnig tók hún þátt í vetrarmótaröðinni þar sem hún var fjórða í gæðingatölti og Þóranna Másdóttir en hún sigraði tölt á WR Hólamótinu og var önnur í fjórgangi. Einnig var hún dugleg að taka þátt í vetrarmótaröð Skagfirðings en þar var hún önnur í gæðingatölti.

Þóranna Másdóttir

Félagsmaður ársins

Hestamannafélagið hefur í nokkur ár verðlaunað félagsmann ársins, en það er sá félagsmaður sem hefur að óeigingirni og dugnaði verið boðinn og búinn til að sinna hinum ýmsu störfum og tekið þátt í félagsstarfinu að mikilli jákvæðni svo eftir er tekið. 

JÁ manneskjan okkar í ár hefur ekki verið þekkt fyrir að hafa nei í sínum orðaforða. Hún er alltaf boðin og búin til að aðstoða hvar sem þess gerist þörf. Hún er einn af drifkröftum Æskulýðsstarfins í skipulagi og framkvæmd og er mjög dugleg við að standa vaktirnar í sjoppunni við fjáröflunar starfið. “Já þetta gerist ekki af sjálfum sér” segir hún stundum. Hún hefur einnig séð um útleigu og þrif á Tjarnabæ og gert það með miklum sóma ásamt mörgu öðru sem hún tekur sér fyrir hendur.

Hún er jákvæð, drífandi og mjög svo óeigingjörn á sinn tíma fyrir félagið þrátt fyrir að vera oftast einstæð móðir með tvö börn… Heiðrún Ósk Jakobínudóttir þú ert dásamlegt eintak, innilega til hamingju með útnefninguna og hafðu bestu þakkir fyrir óeigingjörn störf í þágu okkar félagsmanna. 

Félagsmaður ársins!

Deila færslu