Þó ekki hafi verið mögulegt að halda uppskeruhátíð þetta árið ákvað stjórn Skagfirðings þó að tilnefna og verðlauna allt það hæfileikaríka keppnisfólk sem er í félaginu.
Eftirfarandi eru titilhafar hjá hestamannafélaginu Skagfirðingi árið 2020. Stjórn Skagfirðings óskar knöpum til hamingju með árangurinn á árinu sem er að líða pg sendir nýárskveðju til allra félagsmanna með von um gæfuríkt ár 2021.
Við þökkum þeim sjálfboðaliðum sem starfað hafa fyrir hestamannafélagið Skagfirðing á árinu 2020, kringum alla viðburði félagsins. Án ykkar væri þetta ekki mögulegt.
Knapi ársins 2020 er Bjarni Jónasson en hann var tilnefndur til íþróttaknapa, gæðingaknapa og skeiðknapa ársins. Helst má nefna árangur hans á Íþróttamóti Skagfirðings á Hólum í vor þar sem hann og Harpa Sjöfn frá Hvolsvelli sigruðu fimmgang með einkunnina 7,88 og er það hæsta einkunn sem gefin hefur verið í fimmgangsúrslitum á landinu í ár ásamt því að vera með góðan árangur í tölti, skeiði og gæðingakeppni á árinu.
Íþróttaknapi ársins 2020 er Mette Mannseth en hún sigraði gæðingaskeið á Íþróttamóti Skagfirðings ásamt því að ná góðum árangri á Haustmóti Léttis.
Gæðingaknapi ársins 2020 er Skapti Steinbjörnsson en hann hlaut annað sæti í A-flokki á Félagsmóti Skagfirðings og Stórmóti Þjálfa á Lokbrá frá Hafsteinsstöðum.
Skeiðknapi ársins 2020 er Guðmar Freyr Magnússon sem náði góðum árangri á skeiðleikum félagsins ásamt sjöunda sæti á Reykjavíkurmeistaramóti í 150m skeiði.
Knapi ársins í ungmennaflokki 2020 er Guðmar Freyr Magnússon en hann sigraði fimmgang, gæðingaskeið og tölt á Íþróttamóti Skagfirðings í vor.
Knapi ársins í áhugamannaflokki 2020 er Pétur Grétarsson en hann sigraði A-flokk áhugamanna á Félagsmóti Skagfirðings sem og reið úrslit í B-flokki áhugamanna.