SAMÞYKKT
um hesthús og umgengni í hesthúsahverfinu á Sauðárkróki.
1. gr.
Gildissvið.
Heilbrigðissamþykkt þessi gildir um hesthúsahverfið við Flæðigerði á Sauðárkróki, reiðvelli, og reiðhöll.
2. gr.
Byggingar og önnur mannvirki.
Vanda skal til frágangs hesthúsa og þeirra bygginga sem þeim tilheyra, geymslu á heybirgðum og öðru því er lýtur að hirðingu hestanna. Í hesthúsunum skal einungis halda hesta en ekki annað búfé.
3. gr.
Umhverfi, lóðir og gerði.
Umhverfi hesthúsa skal halda þrifalegu og frágangur lóðar vera snyrtilegur. Gerði skulu malarborin og þau girt vönduðum girðingum. Á hesthúsalóðum er óheimilt að geyma bifreiðar, dráttarvélar, heyvinnslutæki, og aðra lausamuni. Hestakerrur og önnur farartæki, skráð og notkunarhæf, skulu geymd á þar til gerðum og merktum stæðum. Bannað er að skilja hvers konar rusl eftir utanhúss, sem og sagpoka, heyrúllur, plast, byggingarefni og verkfæri.
4. gr.
Bílastæði og umferð bíla.
Bílum skal lagt á þar til merktum bílastæðum, utan þeirra brauta þar sem farið er um á hestum. Bannað er að leggja í götunum á milli húsa í hesthúsahverfinu, nema upp við hesthúsin þar sem rými er til þess eða á tilgreindum bílastæðum. Umferð ökutækja skal ávallt haga í samræmi við aðstæður.
5. gr.
Kerrur og hey.
Kerrum og heyrúllum eða heyböggum skal komið fyrir á þar til gerðum stæðum og þannig frá þeim gengið að ekki stafi af þeim hætta. Eigendur skulu fylgjast reglulega með að allur frágangur sé í lagi, ekki skapist hætta á foki og plast sé ekki laust (blaktandi) á rúllum eða böggum.
6. gr.
Lausaganga.
Lausaganga hesta er bönnuð í hesthúsahverfinu. Eigendur hesthúsa bera alla ábyrgð á leigjendum sínum hvað varðar alla umgengni í hesthúsahverfinu og við hesthús.
Hundar skulu ekki vera lausir í hesthúsahverfinu og næsta nágrenni sbr. samþykkt um hunda- og kattahald í Sveitafélaginu Skagafirði nr. 783/2010.
7. gr.
Taðþrær, gámar.
Tað og moð skal geymt í vökvaheldum taðþróm eða gámum innan viðkomandi lóðar. Þrær eða gámar skulu vera þannig gerð og hirt að ekki stafi af þeim óþrif, mengun eða slysahætta. Í taðþrær má einungis setja hrossatað og moð sem hreinsað er úr hesthúsunum og umhverfis þau.
8. gr.
Tæming taðþróa.
Taðþrær skulu tæmdar áður en þær yfirfyllast og bera hesthúsaeigendur ábyrgð á tæmingu þeirra. Óheimilt er að farga taði og moði á svæðinu nema í samráði við sveitarstjórn. Tað og moð skal flytja á þar til ætlaðan móttökustað á vegum sveitarfélagsins eða það nýtt til jarðræktar eða annarra sambærilegra nota eða fargað eins og reglur um góða búskaparhætti kveða á um, sbr. reglugerð nr. 804/1999 um varnir gegn mengun vatns af völdum köfunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri.
9. gr.
Frárennsli.
Frárennsli frá salernum og hesthúsum skal tengja fráveitukerfi sveitarfélagsins sbr. samþykkt nr. 249/2005 um fráveitu í Sveitafélaginu Skagafirði, sbr. og lög nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna og reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp.
10. gr.
Úrgangur.
Hesthúsaeigendur skulu koma öllu sorpi, rúlluplasti og öðrum úrgangi á gámastöð. Rúlluplast skal ekki setja í gáma fyrir almennt sorp. Urðun úrgangsefna í hesthúsahverfinu og öll brennsla úrgangs er bönnuð. Spilliefnum og öðrum hættulegum úrgangi skal halda aðskildum frá öðrum úrgangi og skila inn til móttökustöðvar fyrir spilliefni. Taði sem mengað er af sorpi, umbúðum eða plastefnum skal farga sem almennum úrgangi.
11. gr.
Eftirlit.
Eftirlit með framkvæmd samþykktar þessarar hefur Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
12. gr.
Brot og viðurlög.
Um brot á samþykkt þessari fer samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Brot gegn samþykkt þessari varðar sektum rúmist þau jafnframt innan refsiákvæða hlutaðeigandi heimildarlaga nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Skulu þau brot sæta þeirri málsmeðferð sem boðin er í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
13. gr.
Samþykkt þessi staðfestist hér með samkvæmt 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og ákvæðum 3., 4. og 5. ml. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.
Ákvæði til bráðabirgða.
Eigendum hesthúsa er veittur frestur til 1. september 2020 til að uppfylla ákvæði 7. greinar.
Sauðárkróki, xx. xxxxxxx 2019