Árshátíð hestamannafélagsins Skagfirðings
Síðastliðin laugardag, 9.nóvember, var árshátíð Skagfirðings haldin í Ljósheimum.
Elvar Logi Friðriksson var veislustjóri og skemmti gestum með söng og sögum fram eftir kvöldi. Ávarp kvöldsins flutti Sara Gísladóttir sem fór yfir mikilvægi hrossaræktar og hestamennsku á Íslandi. Glæsilegt happdrætti þar sem folatollar undir 6 stóðhesta voru í verðlaun og má þar meðal annars nefna, Þráinn frá Flagbjarnarholti og Kveikur frá Stangarlæk.
Viðurkenningar og verðlaun voru afhend fyrir bestan árangur á árinu í eftirfarandi greinum:
Ungmennaflokkur: Ásdís Ósk Elvarsdóttir, Guðmar Freyr Magnússon og Viktoría Eik Elvarsdótttir voru tilnefnd og ungmennaflokksknapi ársins er Ásdís Ósk Elvarsdóttir.
Ásdís Ósk sigraði tölt á íþróttamóti Sleipnis og var í fjórða sæti í slaktaumatölti á sama móti. Á Reykjavíkurmeistaramótinu var hún í 2.sæti í tölti og 7.sæti í fjórgang ásamt því að vera í 2.sæti í fimmgang og 4.sæti í slaktaumatölti. Á Íslandsmótinu lenti hún í 3.sæti í fjórgang, 3.sæti í fimmgang, 3.sæti í tölti eftir sætaröðun dómara og samanlagður sigurvegari í fimmgangsgreinum. Ásdís var svo fulltrúi Íslands á Heimsmeistaramótinu í Berlín með Koltinnu frá Varmalæk þar sem þær hlutu 2.sæti í tölti og 3-5.sæti í fjórgang.
Áhugamannaflokkur: Birna M. Sigurbjörnsdóttir, Rósanna Valdimarsdóttir og Steindóra Ólöf Haraldsdóttir voru tilnefnd og áhugamannsknapi ársins er Birna M.Sigurbjörnsdóttir.
Birna sigraði B-flokk áhugamanna á Opnu gæðingamóti Skagfirðings og Félagsmóti Skagfirðings á Gamm frá Enni. Einnig sigraði hún fjórgang og tölt á Hólamótinu í vor.
Íþróttaknapi ársins: Magnús Bragi Magnússon, Mette Mannseth og Þórarinn Eymundsson voru tilnefnd og íþróttaknapi ársins er Mette Mannseth.
Á WR Hólamótinu í vor sigraði Mette fimmgang á Kalsa frá Þúfum & slaktaumatölt á Blund frá Þúfum en einnig varð hún í þriðja sæti í fjórgang með Skálmöld frá Þúfum. Á Íslandsmótinu reið hún A-úrslit í fimmgang á Kalsa frá Þúfum, B-úrslit í slaktaumatölti á Blund frá Þúfum og B-úrslit í fjórgang á Skálmöld frá Þúfum. Einnig vann hún gæðingaskeið á Stórmóti Hrings með Vívalda frá Torfunesi.
Skeiðknapi ársins: Bjarni Jónasson, Finnbogi Bjarnason og Þórarinn Eymundsson voru tilnefndir og skeiðknapi ársins er Þórarinn Eymundsson.
Þórarinn lenti í 5.sæti í 100m skeiði á Íslandsmótinu, sigraði 150m skeið á öðrum skeiðleikum Náttfara, sigraði 150m skeið á WR íþróttamótinu á Hólum, 2.sæti í 100m skeiði á öðrum skeiðleikum Náttfara, sigraði 150m skeið á Stórmóti Hrings, sigraði 150m skeið á WR íþróttamóti Sleipnis og í 2.sæti í 100m skeiði. Skeiðhryssa hans er Gullbrá frá Lóni en ásamt ofantöldu urðu þau Íslandsmeistarar í 150m skeiði og fóru þau á tímanum 14,10sek!
Gæðingaknapi ársins: Magnús Bragi Magnússon, Mette Mannseth og Skapti Steinbjörnsson voru tilnefnd og gæðingaknapi ársins er Mette Mannseth.
Mette Mannseth náði góðum árangri á gæðingavellinum í ár. Á opna gæðingamótinu sigraði hún bæði A-flokk og B-flokk en í A-flokk hlutu þau Kalsi 8,98 í einkunn og List 8,86 í B-flokk í úrslitum. Á Fákaflugi sigraði hún einnig bæði A-flokk með Kalsa frá Þúfum og B-flokk á List frá Þúfum þar sem þær hlutu einkunnina 9,14 í úrslitum! Einnig stendur hún efst á stöðulista í A-flokk og B-flokk.
Knapi ársins yfir heildina í Skagfirðing er Mette Moe Mannseth.
Fyrir árshátíðina gátu meðlimir í Skagfirðing sent inn tilnefningar fyrir „Félaga“ ársins í Skagfirðing og svo á árshátíðarkvöldinu var svipt hulunni af hver hefði hlotið titilinn. Að þessu sinni var það Sara Gísladóttir sem var hlutskörpust í kosningunni.
Óskum við þeim öllum hjartanlega til hamingju með árangurinn.
Hljómsveitin Smóking spilaði fyrir dunandi dansi fram á nótt.
Árshátíðarnefnd vill koma kærum þökkum til allra þeirra sem gáfu folatoll í happdrættið og öðrum sem komu að árshátíðinni á einn eða annan hátt.